Hvernig fer meðferðin fram og við hverju má búast?
Hvernig á að velja meðhöndlara?
Möguleg vandamál og aukaverkanir
Íslenska: þurrnálun
Enska: acupuncture, acupuncture therapy, Zhenjiu, electroacupuncture, sonopuncture, dry needling, modern acupuncture
Nálastungur eru 2500 ára gömul lækningaraðferð sem upprunnin er í Kína þar sem hárfínum nálum er stungið í ákveðna punkta til að fyrirbyggja eða meðhöndla ýmis vandamál eða sjúkdóma.
Upprunalega voru nálastungur hluti af hinu heildræna kerfi kínverskra lækninga en hafa þróast einnig til að vera notaðar einar og sér sem meðhöndlunaraðferð.
Samkvæmt hefðbundinni kínverskum nálastungum er markmiðið með nálastungum að hafa áhrif á lífsorku einstaklingsins, sem kallast qi (borið fram tjí) og koma jafnvægi á hana. Þessi lífsorka flæðir eftir 12 megin orkubrautum (meridians) og með því að stinga eða þrýsta á ákveðna nálastungupunkta á þessum brautum er komið á jafnvægi á orku einstaklingsins. Það eru 365 aðal nálastungupunktar á orkubrautunum sem sumir hverjir tengjast ákveðnum líffærum eða líffærakerfum og hafa það hlutverk að vera samskiptaleið fyrir líffæri líkamans, auk þess sem það eru 200 aukapunktar. Markmið nálastunga er að auka styrk og koma á jafnvægi á flæði lífsorkunnar og með því fyrirbyggja og lækna líkamleg og andleg vandamál.
Sumir vestrænir nálastungumeðferðaraðilar hafa hafnað hinni austurlensku hugmyndafræði um tilvist lífsorku og orkubrauta og útskýra virkni nálastungu með vestrænni vísindaþekkingu. Rannsóknir á nálastungum hafa sýnt fram á að þær hafa áhrif á heilastarfsemi og framleiðslu á endorfína sem eru náttúruleg efni sem líkaminn framleiðir og hindra sársaukaboð í mænu og heila. Vestræn vísindi hafa ekki fundið eða geta sannað tilvist lífsorku eða orkubrauta og þar af leiðandi hafa ekki viðurkennt tilvist þeirra. Vísindamenn hafa einnig bent á að margir nálastungupunktar eru á þekktum sársaukapunktum (trigger points) og það sé möguleg ástæða fyrir virkni þeirra að minnka sársauka.
Annað notkunarsvið nálastunga er að nota þær til að stinga á sársaukapunkta (trigger points) með það eitt í huga að minnka virkni þeirra. Þessi aðferð er kölluð þurrnálun (dry needling) og er ekki hugsuð útfrá hinni hefðbundnu orkubrauta hugmyndafræði heldur einungis sem verkfæri til að minnka stoðkerfasársauka. Margir meðferðaraðilar eins og nuddarar, osteópatar eða sjúkraþjálfarar nota þessa aðferð samhliða sinni meðferð.
Hefðbundnir kínverskir nálastungusérfræðingar taka ýtarlega sjúkrasögu og framkvæma púlsgreiningu, skoða tungu og skoða ýmis svæði líkamans til að greina ástand og jafnvægi orkuflæðis um orkubrautirnar. Sumir nálastungusérfræðingar greina ekki ástand orkuflæðis um orkubrautirnar heldur stinga á nálastungupunkta í samræmi við sjúkrasögu, t.d. ef viðkomandi kemur með höfuðverki þá er stungið á klassíska höfuðverkjanálastungupunkta.
Nálastunga fer þannig fram að hárfínum nálum er stungið á ákveðna staði. Nálunum er stungið misdjúpt og yfirleitt er stungan sársaukalaus enda nálastungunálar mun fínni en hefðbundnar sprautunálar sem eru notaðar til að sprauta fólk. Algengt er að nota á milli eina og fimmtán nálar og eru þær látnar sitja í stungupunktinum frá nokkrum mínútum í allt að 40 mínútur. Stundum snýr nálastungumeðferðaraðilinn nálunum eða jafnvel setur vægan straum á þær eða hitar þær með því að kveikja á jurtum á þeim, þetta er gert til að örva punktana og flýta fyrir virkni þeirra.
Til að byrja með þarf fólk að mæta einu sinni til tvisvar sinnum í viku og er misjafnt hvað meðferðin tekur langan tíma. Í sumum tilfellum fæst árangur í fyrstu meðferðartímunum á meðan í flóknari og erfiðari tilfellum getur meðferð tekið lengri tíma.
Þeir sem stunda þurrnálun greina ekki orkuflæði heldur stinga nálum beint í sársaukapunkta til að minnka virkni þeirra og bíða með nálarnar í punktunum þangað til að sársauki í þeim hefur minnkað. Annars er þurrnálun að flestu leyti lík hefðbundinni nálastungum í framkvæmd fyrir utan þeir vinna ekki eftir lífsorku hugmyndafræðinni.
Það er mismunandi hvað fólk finnur fyrir í nálastungumeðferð. Flestir finna fyrir afslöppunartilfinningu og jafnvel sofna í meðferðinni á meðan aðrir finna fyrir náladoða, doða eða óþægindunum af einni nál eða fleiri.
Eins og með allar meðferðir er árangur mismunandi og engin trygging er fyrir árangri.
Hefðbundin kínversk læknisfræði notar nálastungur fyrir fjöldann allan af sjúkdómum á meðan vestræn notkun á nálastungum hefur einskorðast við mismunandi vandamál eða sjúkdóma sem reynslan hefur sýnt að nálastungur hafa verið árangursríkar fyrir. Algengustu vandamálin sem nálastungur eru notaðar fyrir eru stoðkerfaverkir ýmiskonar (t.d. háls- eða bakvandamál) hvort sem það er bráða- eða krónískir verkir, slitgigt, tíðarverkjum og höfuðverkjum. Einnig hafa rannsóknir bent til að nálastungur geta verið árangursríkar fyrir sársauka eftir tannuppskurði, ógleði og ælu eftir fæðingu, krabbameinsmeðferð og skurðaðgerðir, sársaukadeyfing fyrir og á meðan fæðingu stendur.
Nálastungur eru að öðlast sífellt meiri viðurkenningu með tilkomu fleiri rannsókna sem staðfesta virkni þeirra við ýmsum vandamálum. Stöðugt er verið að rannsaka virkni nálastunga og eru birtar fjöldi nýrra rannsókna á hverju ári.
Mikilvægt er að velja meðhöndlara sem hefur menntun á sviði nálastunga þar sem nálastungur geta verið varasamar ef framkvæmdar af ólærðum mönnum.
Ef þú vilt fá nálastungumeðferð frá fulllærðum meðferðaraðila í hefðbundnum kínverskum lækningum sem er margra ára ýtarlegt nám skaltu leita eftir meðferðaraðila sem hefur nafnbótina licentiate, bachelor, master eða doctor í acupuncture, oriental medicine eða traditional oriental medicine. Á Íslandi eru nokkrir einstaklingar fulllærðir í þessum fræðum. Þeir sem eru fulllærðir í nálastungum hér á landi kjósa að kalla sig nálastungusérfræðinga.
Þeir sem hafa tekið styttri nám eða námskeið í nálastungum stunda yfirleitt nálastungur þar sem stungið er á ákveðna nálastungupunkta fyrir ákveðnum vandamálum. Þetta er algeng aðferð á kínverskum nuddstofum hér á landi og hjá meðferðaraðilum sem nota hefðbundnar nálastungur samhliða öðrum meðferðum t.d. nuddi.
Þeir sem stunda þurrnálun hafa yfirleitt tekið stutt námskeið í þeim fræðum þar sem farið er yfir öryggi nálastunga, hvernig á að stinga og yfirferð yfir klassíska sársaukapunkta.
Fólk skal varast meðhöndlara sem lofa árangri eða gefa upp ákveðin árangur t.d. eftir svo og svo margar meðhöndlanir þá mun þetta X ástand vera svona breytt.
Ekki hefur verið stofnað nálastungufagfélag hér á landi (skrifað 25. júní 2009)
Nálastungur í höndum lærðra manna er mjög örugg meðferð og lítil hætta á vandamálum. Mikilvægt er að þú fullvissar þig um að sá aðili sem framkvæmir nálastungur sé lærður í þeim fræðum þar sem nálastungur hafa hættu í för með sér sem ólærðir menn geta auðveldlega valdið.
Ein algengasta aukaverkunin af nálastungum, sem er hættulaus, er að sjúklingur falli í yfirlið. Þetta gerist helst hjá fólki sem er hrætt við að láta stinga sig. Ef þú veist af þessu vandamáli skaltu segja nálastungumeðferðaraðilanum frá því og hann ætti að reyna að hafa meðferðina eins afslappaða og stutta og hægt er til að byrja með.
Hætta er á að stinga í líffæri eða taugar. Sérstaklega hættulegt er að stinga í lungu sem getur valdið samföllnum lungum sem er lífshættulegt ástand en auðvelt til meðhöndlunar á sjúkrahúsi. Þetta er ein aðal ástæðan af hverju nálastungur eiga einungis að vera framkvæmdar af fagfólki. Þetta vandamál er verulega sjaldgæft og fagmenn hafa fengið ýtarlega kennslu í að koma í veg fyrir þetta.
Nálastungur hafa sýkingahættu í för með sér frá sýktum nálum. Hér á vesturlöndum eru notaðar dauðhreinsaðar einnota nálar sem koma nánast í veg fyrir þetta vandamál. Fullvissaðu þig um að notaðar séu einnota nálar með því að sjá að umbúðirnar utan um nálarnar séu opnaðar fyrir framan þig.
Þeir sem eru blæðarar eða eru á blóðþynnandi lyfjum geta átt í vandamálum með blæðingu eftir nálastunguna þrátt fyrir að hún skilji eftir verulega lítið gat eftir sig.
Fólk með hjartagangráð eða önnur rafmagnstæki ígrætt í sig eiga að tilkynna nálastungumeðferðaraðilanum það svo að hann noti örugglega ekki rafmagn til að örva nálarnar sem getur truflað virkni ígrættra rafmagnstækja.
Konur sem eru ófrískar skulu tilkynna nálastungusérfræðingnum það þar sem örvun á suma nálastungupunkta getur mögulega komið fæðingu á stað. Nálastungur fyrir ófrískar konur er fullkomlega örugg ef hún er framkvæmt af fagmönnum og eru þær notaðar með góðum árangri af ófrískum konum.
www.wholehealthmd.com
www.cancer.org
Glósur frá Haraldi Magnússyni osteópata
Lesið yfir af Dagmar Eiríksdóttur Lic. Acupuncture